Góð helgi hjá yngra ári 4. flokks kvk

Stelpurnar á yngra ári 4. flokks kvenna spiluðu sinn hvoran leikinn gegn Fram og Fram 2 í gær. KA/Þór 2 spilaði fyrst gegn Fram2 og fóru vægast sagt á kostum. Mikil mannekla var í liðinu þar sem vetrarfríið stóð sem hæst þannig að einungis þrjár úr 99 árgangnum spiluðu leikinn. Auk þess var Heiðbjört markvörður sem staðið hefur vaktina vel á milli stangana í Reykjavík þannig að Sædís Marínósdóttir tók á sig að fara í markið. Það er óhætt að segja að hún hafi farið vægast sagt á kostum í markinu með 19 skot varin og 19 mörk fengin á sig sem gerir 50% markvörslu sem seint telst slakt. Sóknarlega voru stelpurnar mjög frískar og spiluðu sig í færi nánast í hverri sókn. Varnarlega voru þær á köflum hálf sofandi en Sædís bjargaði þeim oftast nær. Staðan í hálfleik var 14-9 fyrir KA/Þór2 en í síðari hálfleik spiluðu Fram stelpurnar mun betur og náðu að lokum að jafna þegar lítið var eftir af leiknum í 19-19. KA/Þór fékk síðan kjörið tækifæri til að ná báðum stigunum þegar Ólöf Marín Hlynsdóttir sem lék á alls oddi í leiknum fiskaði víti þegar örfáar sekúndur voru eftir af leiknum. Á punktinn steig vítaskytta liðsins Erna Birkisdóttir en markvörður Fram2 gerði vel í að verja skotið og jafntefli niðurstaðan.

Auðvitað er súrt að ná aðeins einu stigi úr leiknum þegar liðið spilaði jafn vel og raun bar vitni en þannig er íþróttin og lítið við því að segja. Stelpurnar spiluðu virkilega vel og geta gengið stoltar frá leiknum.

 

KA/Þór1 spilaði síðan gegn liði Fram1. Þessi lið hafa spilað marg oft gegn hvort öðru og leikirnir oftast nær verið hörkuleikir. Heimastelpur ætluðu hins vegar frá fyrstu mínútu að sýna hvers þær eru megnugar eftir svekkjandi tap í bikarnum um síðustu helgi. Eftir tíu mínútna leik var staðan orðin 9-2 fyrir heimastúlkum og sama hvert var horft var einbeitingin og stemmingin gríðarleg. Vörnin sem þær sýndu þessar fyrstu tíu mínúturnar er einhver sú besta sem þær hafa sýnt í vetur og sóknarlega gekk allt upp. Eina sem hægt er að setja út á að stelpurnar höfðu tapað boltanum fjórum sinnum í hraðaupphlaupi, eitthvað sem þær eru ekki vanar að gera. eftir þessa byrjun vöknuðu Fram stúlkur þó til lífsins og náðu að vinna sig inn í leikinn og minnkuðu mest niðu rí 12-7 í fyrri hálfleik og staðan í hálfleik 14-9 eins og í leiknum fyrr um daginn. Stelpurnar komu svo ákveðnar til leiks í seinni hálfleik. Arnrún hætti að vera í brennibolta í markinu og lokaði því hreinlega löngum stundum og Aldís og Una sýndu það af hverju engin lið þola að spila á móti þeim. Þegar farið var að þjappa á þær stöllur ákvað kraftaverkabarnið Kristín “hin handabrotna (en samt bara í stutta stund)” Jóhannsdóttir að lumma inn nokkrum mörkum að utan til að endanlega slökkva á Fram liðinu.  Lokatölur 23-14 í KA heimilinu og mikið fagnað í leikslok.
Varnarlega voru stelpurnar frábærar lengst af og lokuðu algjörlega á spil Framstúlkna á meðan skynsemi og agi réð aðgerðum sóknarlega. Arnrún sýndi flottan karakter í seinni hálfleik með því að rífa sig upp eftir slakan fyrri hálfleik og koma sterk inn. Flottur leikur í alla staði.
KA/Þór1 situr enn sem fyrr í 1. sæti 1. deildar, þremur stigum á undan ÍBV þegar þrír leikir eru eftir. Næsti leikur þeirra er hér heima gegn HK 5. apríl og að sjálfsögðu í KA heimilinu.  


comments powered by Disqus

Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is